Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 40 . mál.


Ed.

535. Nefndarálit



um frv. til l. um launamál.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Aðdragandi þess að bráðabirgðalög um launamál voru gefin út 3. ágúst 1990 var í stuttu máli þessi:
    1. Hinn 18. maí 1989 var undirritaður nýr kjarasamningur milli aðildarfélaga BHMR og ríkissjóðs. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra komu einkum að samningsgerðinni á lokastigi. Af því tilefni er viðtal við forsætisráðherra í Morgunblaðinu þar sem hann „sagðist mundu standa við þær yfirlýsingar sem hann hefði áður gefið, eins og í ríkisstjórninni 1985, að kjör háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins ættu að vera sambærileg við það sem gerðist hjá háskólamenntuðum mönnum utan ríkisgeirans“. Síðan er haft orðrétt eftir Steingrími Hermannssyni: „Raunar skil ég vel þá tortryggni sem er hjá þeim vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að fá þetta fram.“
    Fréttamaður ríkisútvarpsins, Jón Guðni Kristjánsson, átti viðtal við fjármálaráðherra um það bil sem undirskriftum samningsins var að ljúka. Þá sagði Ólafur Ragnar Grímsson m.a. orðrétt: „ ... og ég vil láta hér í ljós þá ósk, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að þessi samningur verði upphafið að nýrri sáttargjörð milli ríkisvaldsins og háskólamenntaðra manna og það er einlæg von okkar að þetta verk verði til þess að skapa tiltrú og traust milli aðila“.
    Davíð Oddsson sagði m.a. af sama tilefni: „Í annan stað er ljóst að þessir samningar eru í raun settir á frost, ef svo mætti segja. Þeir falla að verulegu leyti á næsta ári og árinu þar á eftir og ég er hræddur um að þegar kemur að þeim tíma að menn ætli að fara að yfirfæra þennan samning á veruleikann, þá lendi menn í óbrúanlegum þverstæðum.“
    Þorsteinn Pálsson sagði í Morgunblaðinu 20. maí: „Það er skrifuð út ávísun á framtíðina sem fjármálaráðherra hefur ekki og getur ekki sýnt fram á að innstæða sé fyrir.“
    2. Hinn 1. febr. 1990 náðust kjarasamningar milli ASÍ og VSÍ. Kjarni þeirra var sá að freista þess að koma í veg fyrir frekari rýrnun kaupmáttar með því að launahækkunum yrði stillt í hóf sem ætti að tryggja hjöðnun verðbólgu.
    Einar Oddur Kristjánsson, formaður Vinnuveitendasambandsins, hefur skýrt svo frá að þá hafi forsætisráðherra handsalað að ekki kæmi til launahækkana samkvæmt samningi ríkisins við aðildarfélög BHMR. Á fundi fjárhags- og viðskiptanefndar hefur forsætisráðherra staðfest að þetta sé efnislega rétt.
    Í viðtali við Morgunblaðið sunnudaginn 19. ágúst sl. víkur forsætisráðherra að þessum atburðum og segist þar gjarna hefði viljað standa við samningana við BHMR um að samanburður yrði gerður á kjörum háskólamanna í þjónustu ríkisins og á almennum vinnumarkaði. „Ég hefði mjög gjarna viljað standa við þetta,“ segir hann, og bætir við síðar í viðtalinu að hann „hafi verið talsmaður þess að viðræður yrðu teknar upp við BHMR strax að loknum þjóðarsáttarsamningunum um breytt viðhorf, en það hafi ekki fengið hljómgrunn í ríkisstjórninni. Hann hafi þó einu sinni rætt við forsvarsmenn BHMR, þrátt fyrir að þessi málefni heyri ekki undir hann.“
    Þessi viðræða mun að vísu hafa átt sér stað í janúar 1990 í framhaldi af bréfi stjórnar BHMR til forsætisráðherra, dags. 3. jan. 1990, þar sem kvartað er undan því að „vinnubrögð í samstarfsnefnd BHMR og fjármálaráðherra“ séu „með óviðunandi hætti“. Bréfinu lýkur með þessum orðum Páls Halldórssonar: „Ég vil með þessu bréfi leggja áherslu á hlutverk þitt og ríkisstjórnarinnar við gerð þessa samnings og óska því eindregið eftir því að þú beitir þér innan ríkisstjórnarinnar fyrir því að lausn verði fundin á þessum málum. Hingað til hefur BHMR ekki talið rétt að opinbera þessar vanefndir í þeirri von að ríkið muni standa við gefin fyrirheit. En nú hefur fjármálaráðherra ekki aðeins með tómlæti vanrækt samninginn heldur með beinum hætti brotið gegn honum. Við það mun BHMR ekki una.“
    3. BHMR höfðaði mál fyrir Félagsdómi og féll dómur 23. júlí þar sem fallist var á kröfur BHMR um 4,5% launahækkun frá 1. júlí. Allir dómarar Félagsdóms voru sammála um dómsniðurstöðu. Þótt Halldór Ásgrímsson í fjarveru Steingríms Hermannssonar og Ólafur Ragnar Grímsson hefðu lýst yfir að ekki kæmi annað til greina en hlíta niðurstöðum dómsins voru bráðabirgðalög um launamál gefin út 3. ágúst 1990 þar sem kjarasamningarnir voru í raun felldir úr gildi.
    Skiptar skoðanir eru um hvort bráðabirgðalögin standist ákvæði stjórnarskrárinnar. Á fundi fjárhags- og viðskiptanefndar nefndi forsætisráðherra nöfn lögfræðinga og lögmanna sem ríkisstjórnin hefði haft til ráðuneytis um þau efni en sagði aðspurður að engin skrifleg álitsgerð hefði legið fyrir ríkisstjórninni.
    Í 4. gr. bráðabirgðalaganna er kveðið á um að 5. og 15. gr. kjarasamninga milli aðildarfélaga BHMR og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs frá 18. og 19. maí 1989 skuli falla úr gildi. Forsætisráðherra upplýsti á fundi fjárhags- og viðskiptanefndar að hann hefði samþykkt orðalag I. kafla kjarasamninganna en kvaðst ekki hafa haft með 15. gr. að gera. Aðspurðir sögðu fulltrúar BHMR á fundi nefndarinnar að forsætisráðherra hefði samþykkt efnisatriði 15. gr.
    Fulltrúar fjármálaráðherra komu á fund fjárhags- og viðskiptanefndar. Aðstoðarmaður fjármálaraherra sagði að samið hefði verið við Gallup á Íslandi um að afla upplýsinga um launakjör háskólamenntaðra manna á almennum vinnumarkaði og í opinberri þjónustu. Launamunur hefði ekki verið staðreyndur enn. Formaður BHMR hefur upplýst í símtali við undirritaðan að þær upplýsingar, sem fyrir liggja hjá Gallup á Íslandi, staðfesti hið gagnstæða, að um verulegan launamun sé að ræða. Ólafur Örn Haraldsson og Tómas B. Björnsson frá Gallup á Íslandi upplýstu á fundi fjárhags- og viðskiptanefndar að niðurstöðum hefði í grófum dráttum verið skilað fyrir 1. júlí sem hefðu gefið ótvíræðar vísbendingar um launakjör háskólamenntaðra manna. Verkið væri yfirgripsmikið og fyrirtækið hefði átt góða samvinnu við báða málsaðila. Þeir hefðu óskað eftir því að skýrsla Gallups yrði ekki birt. Gagnasöfnun hefði lokið í júní en úrvinnsla heldur enn áfram.
    4. Hinn 13. júlí var undirritaður kjarasamningur milli fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Hann er skýrður með því að í samræmi við reglugerð nr. 240/1989 skuli hámarksaldur flugumferðarstjóra vera 60 ár, og 3 árum betur ef viðkomandi er við góða heilsu, í stað 70 ára áður.
    Í kjarasamningnum er gert ráð fyrir að svokölluð föst yfirvinna, sem ekki hefur verið unnin, skuli felld inn í mánaðarlaunin í tveimur áföngum. Hér er um 44 stundir að ræða sem var eytt með 6 launaflokka hækkun 1. ágúst sl. og 7 launaflokka hækkun 1. jan. sl. Það jafngildir 39% hækkun mánaðarlauna með samsvarandi hækkunum á yfirvinnu, gæsluvöktum og vaktaálagi auk eftirlauna.
    Þá er samið um að laun flugumferðarstjóra hækki um 4,5% á tímabilinu 1. sept. 1991 til 31. des. 1991 og um 4,26% eigi síðar en 1. júní 1992. Orðalag samkomulagsins og bókunar um niðurstöður og lokafrágang, sem birt eru sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu, bendir ótvírætt til að þessar launahækkanir skuli vera umfram það sem um semst á almennum vinnumarkaði. Að öðrum kosti er ekki hægt að sjá að hin sérstaka bókun hafi neitt að segja.
    Hinn 27. júlí áttu Páll Halldórsson, formaður BHMR, Birgir Björn Sigurjónsson, framkvæmdastjóri BHMR, og Eggert Lárusson, formaður HÍK, fund með Steingrími Hermannssyni, Jóni Sigurðssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni. Samkvæmt fundargerð BHMR af þessum fundi spurði Birgir Björn hvort ráðherrarnir sæju nokkurs staðar á næstu árum tækifæri til að læða að leiðréttingum til BHMR. Þessu svaraði forsætisráðherra svo samkvæmt fundargerðinni:
    „Göngum í gegnum úrskurð skv. 9. gr. um leiðréttingartilefnið og ríkið er skuldbundið af samningunum. Þótt þetta tækist í haust eru ákvæði í öðrum samningum sem leiða til víxlverkana. Finnst líklegt að unnt sé að sannfæra þjóðina um leiðréttingu enda komi hún ekki til framkvæmda fyrr en eftir þjóðarsáttina. Ef þeir semja aftur þjóðarsátt sem fæli í sér frystingu á kjörum BHMR þá veltur ábyrgð þeirra á þessari ráðagerð. Ég efa að þeir geti það!
    Ríkisstjórnin ætlar ekki að raska þjóðarsáttinni, um það er samkomulag.“
    Að öðru leyti vísar undirritaður til nefndarálits 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar, Friðriks Sophussonar.
    Að lokum má rifja upp að á fundi fjárhags- og viðskiptanefndar kvaðst forsætisráðherra bera fulla ábyrgð á orðalagi 5. gr. kjarasamningsins. Hann og fjármálaráðherra segjast þó ekki bera pólitíska ábyrgð á samningsgerðinni. Hvarvetna í nálægum löndum hefði fjármálaráðherra verið gert að segja af sér eftir slíka frammistöðu. Af siðferðilegum og pólitískum ástæðum er sjálfgert að greiða atkvæði gegn frumvarpinu. Því má ekki rugla saman við þjóðarsátt sem gerð er af hreinskilni og fyrir opnum tjöldum þannig að staðið sé við allt það sem í sáttmálsörkinni stendur.
    Framhald þjóðarsáttar er undir því komið að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar verði velt úr sessi.

Alþingi, 23. jan. 1991.



Halldór Blöndal.





Fylgiskjal.